Íslendingar leita mest allra þjóða að Eurovision á Youtube

Þjóðlagahátíð Evrópu nálgast nú óðum með tilheyrandi glimmeri og í ár sér Svala Björgvins sér um að kynda Gleðibankamaníu þjóðarinnar. Íslendingar eru engir amatörar þegar kemur að áhuga á þessari árlegu uppskeruhátíð evrópskrar menningar og fylgjast vel með nýjustu straumum og stefnum í tónlist og myndböndum sem tengjast viðburðinum, eins og sjá má af því að Google frændi segir okkur leita mest allra að slíku á Youtube.

Möltubúar koma í humátt á eftir okkur en þeir bera höfuð og herðar yfir alla aðra í almennri leit á vefnum að Eurovision. En í öðru sæti á þeim lista eru að sjálfsögðu Íslendingar.

Það á eftir að koma í ljós hvort framlag Íslands mun heilla Evrópubúa almennt jafn mikið og okkur sjálf. Ef tekið er mark á tölfræðinni í netleit veraldarinnar að lögum í Eurovision virðist ekki mikil von til þess að Svala (bláa línan) nái að skáka hinum ítalska Francesco Gabbani (rauða línan) sem leiðir kapphlaupið í ár með dansandi górillu sér við hlið.

Við trúum samt á okkar konu, enda hefur sýnt sig áður að sigur á þessu stærsta sviði Evrópu er ekki gefinn fyrr en síðasta atkvæðið kemur í hús.  Og Google Trends er auðvitað ekki algild sannindi þó að tólið geti gefið ágæta vísbendingu um áhuga á hinum ýmsu hlutum, hvort sem er fólki, fyrirtækjum eða Eurovision. Í það minnsta geta þeir sem vilja vera fræðilegir í nálgun sinni á Euro-rauðvínspottinn í vinnunni notað samanburðartólið til að reikna út líklegan sigurvegara. Við tökum hins vegar enga ábyrgð á því herfilega tapi sem slíkar æfingar geta valdið.

Comments are closed.