Aprílgöbbum fórnað á altari falsfrétta

Að láta aðra hlaupa apríl er góð skemmtun. Eða hefur allavega verið það hingað til. En nú er svo komið að stærstu fréttaveitur Norðurlanda sáu sér þann kost vænstan að lýsa því yfir að þær myndu ekki birta platfréttir á 1. apríl til að sporna gegn dreifingu „alvöru falsfrétta“. Ef slíkt hugtak er yfir höfuð rökrétt.

Og þó að það sé svosem virðingarverð afstaða hjá fréttastofum að vilja passa að fólk fái sannar og réttar fréttir þá verður ekki hjá því komist að gráta smá yfir þessari nálgun. Því að það hlýtur að minnsta kosti að vera umdeilanlegt hvort að fyrstaaprílfréttir á borð við að spánýtt Coca Cola HELIUM sé væntanlegt í verslanir séu á einhvern hátt hættulegar lýðræðinu vegna þess að að þær falli í þennan vafasama flokk falsfrétta. Þær eru jú svona plat-falsfréttir eða hvað?

Það sama má segja um frétt BBC 3 í Bretlandi um nýjan þátt David Attenborough: „Life of Grime“, sem fáir féllu fyrir (mögulega af nokkuð augljósum ástæðum) eða tilboð Iceland verslunarkeðjunnar um frosna túlípana.

Falskar fréttir eru vissulega vaxandi vandamál en það hlýtur samt að mega setja stórt spurningamerki við það hvort að fólk sé ekki fært um að greina á milli svona augljóss skemmtiefnis sem sett er fram á augljósasta sprelldegi ársins annars vegar og raunverulegra frétta hins vegar, og hafa svo gaman að öllu saman? Að minnsta kosti þegar fólk fattar grínið (hugsanlega á bilinu 2.-4. apríl).

En kannski er þetta ekki svo einfalt. Kannski var mikilvægt að kasta þessari hefð fyrir borð í þetta sinn til að vekja athygli á því að okkur berst sívaxandi flóð af skrökulygi í fréttaformi á hverjum degi, ekki síst í gegn um internetið. Möguleikarnir sem þeir hafa sem vilja dreifa ósannindum í einhverjum tilgangi aukast sífellt, og eru sífellt meira nýttir og á vafasamari hátt. Því er aldrei of oft minnt á það að skynsamlegt er að skoða vel hvaðan fréttir koma og hvernig þær eru settar fram, og beita gagnrýnni hugsun á allt sem fyrir okkur er borið.

Vel heppnað aprílgabb er þó fyrst og fremst ennþá góð skemmtun. Íslenskir fréttamenn hafa hingað til haft lag á því að láta fólk hlaupa apríl og á því varð ekki stór breyting í ár. Það má svo rífast um það hvernig það er mælt hvort fólk hefur hlaupið yfir þrjá þröskulda á internetinu til móts við gabbið. Það er heimspekileg umræða sem ekki verður tæmd hér. En á meðan við veltum því fyrir okkur er upplagt að skreppa og skrá sig í IKEA klúbbinn og fá ókeypis heimsendingu og samsetningu á svefnherbergisskápnum plús sænskar kjötbollur að eigin vali í eftirrétt. Kostaboð, hlaupum!

 

Comments are closed.